Dansfélagið Vefarinn

Nú vefum við mjúka, og dýrindis dúka

Vísurnar hans Jósavins

FORMANNS RAUNIR
Hér samsærið er synda plott
Saman frúr sig melda
Þeim fannst bæði fínt og flott
Formanninn að gelda

Lævísin hún leikur sér
Líkt og dans á súlum
Þær glettnar léku golfið hér
Með glæstum formanns kúlum

Formannstetrið tók á sprett
Tindilfættur héðan
Saman kreisti klofið nett
Kúlulaus að neðan

Allt er gott sem endar vel
Ekkert karlinn getur
Getulaus nú greyið er
Sem gamalt sauðatetur
(Hugrenningar eftir leiðinlegan fréttatíma)

Allt er hérna sett á svið
sem hér þarf að sýna
Gunnararnir glíma við
ganglimina fína

Hérna er ljóð sem Jósavin samdi fyrir afmælið þeirra Möggu og Gunna og átti  hún að vera frá Möggu til Gunna (sungið við lagið “Fyrr var oft í koti kátt”

Fyrr var oft með karli kátt
Kát við vorum saman
Er við stigum dansinn dátt
dumbrauð oft í framann
Út á gólfið ætíð fyrst
Ædd´an með mig glaður
Til að dansa tjútt og tvist
Í tangó var oft staður.

Árin færðust yfir þig
allt þá fór að breytast
þó þú dansir dátt við mig
dáltið ert að þreytast
Nú þú telur tugi fimm
Telst það enginn vafi
Við mig eru örlög grimm
“Að sofa hjá þér afi”.
Og svo var annað ljóð sem átti að vera frá Gunna til Möggu (sungið við lagið “Íslandsfjöllin”)

Ég elska yður Ó Magga mín
með alla þína kosti og galla
Æðislega þú ert svo fín
að hefðar mey þig mætti kalla
þú hefur alltaf verið við mig góð
við höfum eignast börnin sæl og rjóð
Í ást og trú
ég segi nú
Þú ert samt orðin fimmtug amma

Svo glæsilega við göngum nú
um götu lífsins einu brautu
við höfum vinunum verið trú
og verið sterk í hverri þrautu
Í dansinum við erum fim og fín
og fjölda mörgum höfum kennt það grín
Í ást og trú
Ég segi nú
Við berum saman hundrað árin

Svo þegar hann Gunnar Darri (barnabarn Möggu og Gunna) sagði við ömmu sína “Af hverju ert þú alltaf að stjórna?” þegar þau tvö voru að halda upp á afmlælið sitt þá orti Jósavin vísu:

Örlítið mér áðan brá
er orði brá hér snjöllu
Alltaf er það eins að sjá
“amma ræður öllu”