Dansfélagið Vefarinn

Nú vefum við mjúka, og dýrindis dúka

Dansfélagið Vefarinn

Dansfélagið Vefarinn var formlega stofnað í nóvember 2004 og eru meðlimir 44 talsins.
Starfsvæði félagsins er Akureyri og nágrenni. 

Megintilgangur félagsins er að sýna íslenska þjóðdansa og aðra sýningadansa. Einnig vill félagið vekja áhuga almennings á innlendum og erlendum og erlendum þjóðdönsum, stuðla að kennslu þeirra og útbreiðslu.

Sýnendur halda í hefðirnar og syngja um leið og dansað er við lifandi undirleik harmóníkunnar. Vefarinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á að öll umgjörð sé sem vönduðust þegar hópurinn kemur fram og því eru allir sýnendur í þjóðbúningum og á sauðskinnsskóm. Lagt er upp með minnst sex pör í hverri sýningu svo dansarnir njóti sín sem best þar sem margir þeirra eru hópdansar. 

Einkennisdans félagsins, Vefarinn, er einn af elstu dönsum okkar Íslendinga. Þar líkja dansarar eftir vefnaði í láréttum vefstól sem byrjað var að nota hér á landi á 18. öld. Fyrst eru þræðirnir þræddir í grindina, öll bil jöfnuð og skyttunni rennt í gegn. Slitna þræði þarf að laga jafnóðum og slegið er fast eða laust eftir sem við á til að gera voðina sem vandaðasta. Að lokum er voðin undin ofan af rifjunum fullgerð.

 

Söngur Vefarans

Við sýna munum dansa hér í dag
og dálítið við raulum við þá lag
Nú stígum sporin sparifötum í
og spjörum okkur dável fram úr því

Nú vikivaka, vínarkrus og ræl
við sýnum ykkur það með nokkrum stæl
Og þökkum ykkur áhorf þetta sinn
því þetta er dansflokkurinn Vefarinn

Jósavin Heiðmann Arason