Dansfélagið Vefarinn

Nú vefum við mjúka, og dýrindis dúka

12. febrúar 2010 kl. 10.57

Aðalfundi lokið

Fært undir Óflokkað

Þá er aðalfundi Vefarans lokið og var ljómandi góð mæting á hann. Nokkrar lagabreytingar voru gerðar og var sama stjórn kosin áfram. Farið var yfir hvað er framundan og mikið rætt um Ísleik sem verður dagana 8. - 16. júlí. Ákveðið hefur verið að fara á þá, vonandi sem flestir. Óskaði Þjóðdansafélag Reykjavíkur eftir aðstoð okkar við framkvæmd mótsins og getur vinnuframlag komið á móti mótsgjaldi sem er 15.000 krónur. Nánari upplýsingar munu berast þegar nær dregur.

Vorgleðin okkar verður helgina 7. - 9. maí fyrir austan fjall. Farið verður með sýningu til Egilsstaða, gist í Jökuldalnum og á að reyna að fá að skoða Álverið á Reyðarfirði í leiðinni.

Sýning verður í Bergi, menningarhúsi Dalvíkinga, 13. maí, Uppstigningardag.

Verið er að skipuleggja ferðamannasýningar í Arnarnesi einu sinni í mánuði í sumar, ekki er búið að fastsetja neitt og verður góður fyrirvari á sýningum því að sjálfsögðu er fólk í sumarfríum á þessum tíma og kannski upptekið annars staðar.

Í heildina mjög góður fundur þar sem fólk gaf sér góðan tíma í að ræða málefni fundar svo þetta verður líklega fyrirkomulag Aðalfunda í framtíðinni. Við þökkum Elís og Heiðdísi fyrir að hýsa okkur og innkaupanefnd fyrir veitingarnar.

Gunnar Smári bað fólk vinsamlegast að gefa svar á næstu æfingu hvort það er með í sýningum í vor fyrir austan og í Bergi því búið er að raða upp stórri dagskrá fyrir sýningarnar. Gott væri ef þeir sem geta alls ekki verið með láti vita svo ekki sé verið að gera ráð fyrir þeim.

Ritari

Færslan var rituð 12. febrúar 2010 kl. 10.57 og færð undir Óflokkað.
Þú getur fylgst með ummælum við hana með RSS veitu. Þú getur ritað ummæli, eða send bakvísun frá þínum vef.

2 ummæli við „Aðalfundi lokið“

  1. Jóhann:

    Mikið ofboðslega hefði hún amma mín heitin orðið kát að heyra að eftir hennar dag væri framsýnt fólk eins þið til sem héldu uppi siðum liðinna kynslóða. Hún fæddist 1907 í torfbæ suður í Ölfusi og fyrstu árin söng hún til að halda á sér hita. Frábært framtak, og ég óska ykkur velfarnaðar.

  2. Magga:

    Takk Jóhann fyrir góðar óskir. Ég veit að margar ömmur eru glaðar yfir þessu framtaki þó yngri séu en amma þín…
    Kv. Magga